Spegill fortíðar-silfur framtíðar

Spegill fortíðar –silfur framtíðar

Fræðslufundur 7. febrúar 2018 Kl. 20.00

Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur að Grandagarði 18,  2 hæð. ATH. húsið er merkt Hafrannsóknarstofnun

Dagskrá nýs árs verður helguð árinu 1918 í tilefni 100 ára afmælis sjálfsstæðis Íslendinga.

 1918 – 2018

7. febrúar 2018, kl. 20.00

Kristján Sveinsson, sagnfræðingur.  Og allt kom það með skipum. Skip, vitar og hafnir á árinu 1918.

Á þessu ári er því fagnað að Ísland hefur verið sjálfstætt og fullvalda ríki í eina öld. Hugmyndin um fullveldi kom til Íslands með skipi frá útlöndum og það gerði einnig hinn danski hluti samninganefndarinnar sem að lokum komst að niðurstöðu um sambandslagasamninginn sem varð hinn formlegi grunnur fullveldisins fram að lýðveldisstofnun. Fleira barst til Íslands með millilandaskipum en hugmyndir. Verslun efldist á 19. öld og erlendur varningur barst í sífellt meiri mæli til landsins sem greitt var fyrir með útflutningsafurðum sem einkum voru afurðir sjávarútvegs og landbúnaðar. Úthafið er í senn samgönguæð og farartálmi. Öldum saman hafði hlutverk farartálmans verið stærra og meira en um miðja 19. öld varð afdrifarík breyting á þessu með tilkomu gufuskipa og áætlanaferða. Vikið verður að meginþáttunum í þróun kaupsiglinga milli Íslands og nágrannalandanna á síðari hluta 19. aldar og þróuninni fylgt eftir fram á þá 20. þegar landsmenn tengdust umheiminum í ríkari mæli en nokkru sinni áður og innbyrðis samskipti þeirra urðu einnig greiðari með því að reglubundnar strandferðir hófust. Þessari framvindu verður lýst í megindráttum og hugað að þýðingu hennar fyrir þróun íslensks samfélags í spjalli um skip, vita og hafnir.

Kristján Sveinsson er sagnfræðingur í Reykjavík. Starfsmaður Alþingis. Ritaði á fyrri árum bækur um vita og hafnir.

Staður og stund: Grandagarður 18, Reykjavík                                     

Miðvikudagurinn 7. febrúar, 2018

Kl. 20.00.  

 


Spegill fortíðar – silfur framtíðar

Spegill fortíðar –silfur framtíðar

Fræðslufundur 10. janúar 2018 Kl. 20.00

Dagskrá Vitafélagsins hefst á nýju ári með fræðslufundi þann 10 janúar, 2018 kl. 20.00. Athygli er vakin á því að dagskrá vetrarins verður haldin í húsnæði

Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur að Grandagarði 18,  2 hæð

Dagskrá nýs árs verður helguð árinu 1918 í tilefni 100 ára afmælis sjálfsstæðis Íslendinga.

 1918 – 2018

10.janúar 2018, kl. 20.00

Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur. Merkasta ár Íslandssögunnar? Lífskjör, áföll, fullveldi og siglingar á árinu 1918.

Í erindinu mun Gunnar Þór fjalla um hag íslensku þjóðarinnar árið 1918, áföll sem dundu á þjóðinni (frostavetur, Kötlugos, spænsku veikina), áhrif heimsstyrjaldarinnar fyrri, fullveldið og siglingar (millilandasiglingar, strandsiglingar).

Gunnar Þór Bjarnason er sagnfræðingur, fæddur 1957. Hann var lengi framhaldsskólakennari og hefur um árabil sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands. Meðal verka hans eru Upp með fánann! Baráttan um uppkastið 1908 og sjálfstæðisbarátta Íslendinga og Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918. Fyrir síðarnefnda ritið hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Haustið 2016 kom það út í nýrri og aukinni útgáfu, með hátt í 600 myndum, undir heitinu Stríðið mikla. Hann vinnur nú að ritun bókar í tilfefni af því að á næsta ári verða hundrað ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.

Staður og stund: Grandagarður 18, Reykjavík                                     

Miðvikudagurinn 10. janúar, 2018

Kl. 20.00.  


Fræðslufundur

 

Spegill fortíðar – silfur framtíðar

 1 nóvember, 2017, kl. 20.00 í húsnæði

 Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur að Grandagarði 18,  2 hæð

Konur og strandmenning

 Inga Fanney Egilsdóttir, stýrimaður: Konan í brúnni

Inga Fanney hefur skipstjórnarréttindi á farskipum og fiskiskipum. Hún hefur verið yfirstýrimaður á íslenskum fraktskipum og stýrimaður á rannsóknaskipi í Namibíu svo eitthvað sé nefnt. Þar kenndi hún líka við sjómanna- og stýrimannaskóla í Walvis Bay. Hún hefur frá mörgu skemmtilegu að setja frá ferli sínum sem er um mjög margt óvenjulegur.

Gunnhildur Hrólfsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur: „Þær þráðinn spunnu“. Konur í Vestmannaeyjum og hlutverk þeirra í samfélagi karla.

Gunnhildur er fædd í Vestmannaeyjum og ólst þar upp við ýmis konar fiskvinnslustörf. Hún lauk B.A.-prófi í sagnfræði og árið 2015 gaf hún út bókina Þær þráðinn spunnu um störf kvenna og sérstaklega konur í Vestmannaeyjum þar sem lífsbjörgin var fiskur og fugl.  Vinnuaðstaða kvenna sem unnu í fiski var erfið. Þær stóðu í kulda og bleytu og átti sú aðstaða ekki aðeins við Eyjar heldur flesta staði á landinu þar sem fiski var landað. Gunnhildur hefur samið barna- og unglingabækur sem hafa fengið mjög góða dóma og unnið til verðlauna á því sviði.


Súðbyrðingurinn

SÚÐBYRÐINGURINN Á LISTA HJÁ UNESCO

MÁLÞING Í SJÓMINJASAFNI REYKJAVÍKUR – GRANDAGARÐI 8

Föstudaginn 6. október KL. 14:00

Vitafélagið – íslensk strandmenning hefur ásamt öflugum hópi áhugafólks á Norðurlöndum unnið að því að fá norrænar hefðir við smíði súðbyrðings settar á lista hjá UNESCO yfir huglægar menningarerfðir mannkynsins- listann yfir þýðingarmikla starfshætti sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar – hefðir sem munu hverfa verði þeim ekki viðhaldið. Á þriðja hundrað samstarfs- og stuðningsaðilar eru að verkefninu og hafa nú öll norrænu ríkin opnað lista yfir skráningu menningarerfða UNESCO – nema Ísland.

Dagskrá fundarins:

Reynirinn dregur til botns en einirinn heldur á floti“ – Jón Sigurpálsson, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða

Norrænar hefðir við smíði súðbyrðings á lista hjá UNESCO – Tore Friis-Olsen, Förbundet Kysten Noregi

Fundarstjóri: Sigrún Klara Hannesdóttir

Fundurinn er öllum opinn


Spegill fortíðar -silfur framtíðar

Spegill fortíðar – silfur framtíðar

Fræðslufundur 4. október  2017 Kl. 20.00

Hefðbundin dagskrá Vitafélagsins hefst  þann 4  október 2017. Athygli er vakin á því að dagskrá vetrarins verður haldin í húsnæði

 Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur að Grandagarði 18,  2 hæð

Dagskrá vetrarins verður í raun tvískipt. Að hausti verða eingöngu konur á dagskrá og fjallað verður um konur og strandmenningu í víðasta skilningi. Eftir áramótin hefst dagskrá sem helguð er árinu 1918 í tilefni 100 ára afmælis sjálfsstæðis Íslendinga.

 Konur og strandmenning

4 október 2017, kl. 20.00

Marzibil Erlendsdóttir, vitavörður: Vitavarsla á Dalatanga á síðari tímum.

 Marzibil er bóndi, vitavörður og veðurathugunarkona á Dalatanga.  Hún segir frá starfi sínu sem vitavörður og fræðir  fundarmenn um vitana tvo og hljóðvitann á Dalatanga. Marzibil er fróðleiksbrunnur um vita og störf vitavarðarins. Hún er fædd á Siglunesi en hefur búið á Dalatanga frá 8 ára aldri. Faðir hennar var vitavörður á Dalatanga í 25 ár og tók Marzibil við starfi hans og sinnir jafnframt veðurathugun auk þess að vera bóndi.

Guðrún Arndís Jónsdóttir, stjórnarmaður í félaginu Konur í sjávarútvegi. Markmið félagsins og viðfangsefni.

 Guðrún Arndís Jónsdóttir er skrifstofustjóri hjá Iceland Pelagic ehf.   Hún er  viðskiptafræðingur með meistarapróf og hef áður starfað hjá m.a.  Samherja hf sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra útgerðarsviðs og sem forstöðumaður Verðlagsstofu skiptaverðs.   

Félagið „Konur í sjávarútvegi“ var stofnað  árið 2013  af nokkrum konum sem starfa í greininni.   Þær eru nú orðnar um 250 talsins og vinna hjá hinum ýmsu fyrirtækjum bæði við veiðar og vinnslu en einnig hjá hinum ýmsu fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn.    Tilgangurinn er sá m.a. að mynda öflugt tengslanet meðal félagskvenna, gera þær sýnilegri innan greinarinnar og stuðla að fræðslu.  

Staður og stund: Grandagarður 18, Reykjavík                                     

Miðvikudagurinn,  4 október, 2017


Nýtt merki/lógó félagsins

Ávordögum leit nýtt merki félagsins ljós. Merkið/lógóið er hannað af myndlistarkonunni og þúsundþjalasmiðnum Eriku Lind Isaksen, en hún hefur allt frá upphafi annast hönnun Fréttabréfsins sem félagið gefur út tvisvar á ári. Kann stjórn félgsins henni miklar þakkir fyrir frábæra vinnu og samstarf.


Hafið, fjaran og fólkið

Hafið, fjaran og fólkið

Málþing í safnaðarheimilinu Vopnafirði laugardaginn 20. maí kl 14:00

14:00-14.30 Kynning á Vitafélaginu-íslensk strandmenning og Nordisk kustkultur –
Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir, gjaldkeri Vitafélagsins
14.30-15:00 Hin sérstaka saga hafnarinnar á Vopnafirði – Kristján Sveinsson, sagnfræðingur
15:00-15.30 Hlutverk og samfélagsábyrgð fyrirtækis í litlu sjávarplássi –
Magnús Þór Róbertsson rekstrarstjóri HB Granda
15:30-16:00 Hlé
16:00-16:30 Verði ljós – Ólafur Áki Ragnarsson, sveitastjóri
16.30-17:00 Kostir þess og gallar að búa í litlu samfélagi – Hólmar Bjarki Wiium Bárðarson

Fundarstjóri: Sigríður Bragadóttir


Apríl 2017

Fræðslufundur 5. apríl 2017 kl. 20.00
í ÆGISGARÐI, EYJARSLÓÐ 5.

Dagskrá vetrarins er helguð íslenska vitanum sem hefur lýst sjófarendum um hættur strandarinnar og átt þátt í að bjarga óteljandi mannslífum.
Síðasti fræðslufundur vetrarins verður haldinn miðvikudaginn 5. apríl kl. 20:00 í Ægisgarði, Eyjaslóð 5..
Á fræðslufundinum mun Magnús Skúlason, arkitekt ræða um friðun vitabygginga og þá húsagerðalist sem einkennir þá og Guðmundur Stefán Sigurðsson, fornleifafræðingur tala um strandminjar og stefnu Minjastofnunar í varðveislu og verndun strandminja.

Magnús Skúlason, arkitekt og stjórnarmaður Vitafélagsins þekkir öðrum betur sögu byggingarlistar sem einkennir íslenska vitann. Magnús var forstöðumaður Húsafriðunarnefndar um árabil og það var fyrir hans tilstuðlan sem fyrstu vitar landsins voru friðlýstir árið 2003. Nú liggur fyrir tillaga að friðlýsingu á 11 vitum til viðbótar en það er einmitt gert að frumkvæði Magnúsar sem formanns stjórnar Húsafriðunarnefndar.

Guðmundur Stefán Sigurðsson, fornleifafræðingur er fyrsti starfsmaður Minjastofnunar eingöngu vinnur með strandmenningu. Hann hefur m.a. það hlutverk að kortleggja helstu staði sem nú þegar eru þekktir, meta hættu og forgangsraða stöðum til rannsókna og/eða verndunar og skipuleggja skráningu strandminja á óskráðum svæðum. Mikið landbrot af völdum sjávar er víða við strendur landsins og fjöldi menningarminja horfnar eða á leið í sjó. Guðmundur Stefán mun m.a. fræða okkur um framtíðarsýn Minjastofnunar sem lýtur að strandminjum.

Staður og stund:
ÆGISGARUR, EYJARSLÓÐ 5
5. APRÍL 2017
Kl. 20.00. Aðgangur ókeypis og öllum opinn


Aðalfundur

AÐALFUNDUR VITAFÉLAGSINS

– ÍSLENSK STRANDMENNING
VERÐUR HALDINN Í
ÆGISGARÐI, EYJARSLÓÐ 5, REYKJAVÍK
MIÐVIKUDAGINN 5.APRÍL KLUKKAN 18:00

Dagskrá fundar

1. Skýrsla formanns.
2. Reikningsuppgjör s.l. árs
3. Lagabreytingar
4. Kosning formanns, fjögurra aðalmanna í stjórn og tveggja varamanna.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna til eins árs.
6. Ákvörðun félagsgjalda.
7. Önnur mál.

 

 

Við minnum félagsmenn á að senda okkur breytt net- og heimilsföng og greiða félagsgjöld
sem fyrst þannig að félagsstarfið haldi áfram að blómstra.
Vitafélagi –íslensk strandmenning