Súðbyrðingurinn á heimsminjaskrá


Norræni súðbyrðingurinn tilnefndur á lista heimsminjasakrár UNESCO                 
Þetta er fyrsta íslenska tilnefningin og jafnframt fyrsta samnorræna tilnefningin 

Norðurlöndin öll, ásamt sjálfstjórnarríkjunum, Færeyjum og Álandseyjum, standa saman að tilnefningu norrænnar trébátasmíði á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, um óefnislega menningararfleifð mannkynsins. Þar er mælst til að skráð verði verklag, siðir, venjur og hættir sem tengjast norrænum súðbyrtum trébátum. Umsóknin var afhent í vikunni í París, undirrituð af ráðherrum allra norrænu ríkjanna.

Hinn dæmigerði norræni trébátur — súðbyrðingurinn — hefur fylgt Norðurlandabúum um árþúsundir og greitt þeim leið um hafið. Súðbyrðingarnir voru farkostir fólks hvarvetna með ströndum Norðurlandanna. Þeir voru mikilvæg samgöngutæki sem tengdu Norðurlandaþjóðirnar – og á þeim var dregin björg í bú. Súðbyrðingurinn sjálfur er dýrmætur menningararfur og gegnir ríku hlutverki í strandmenningu Norðurlandaþjóðanna.

Enn þann dag í dag er norrænum súðbyrðingum haldið til fiskjar og bátasmiðir munda tól sín og tæki til smíða á súðbyrðingnum – og þekking á viðhaldi bátanna er enn til staðar. Þessir fornu farkostir eru sívinsælir til siglinga og veiða meðal almennings. En blikur eru á lofti.

Menningararfur í hættu

Hin lifandi, óefnislega menningararfleifð sem tengist norræna súðbyrðingnum er í hættu. Súðbyrtum bátum hefur fækkað verulega undanfarna áratugi og sífellt fækkar bátasmiðum sem kunna til verka. Þegar svo er komið er menningararfur að glatast og líkur á að menningarverðmætin sem felast í norræna súðbyrðingnum hverfi í stað þess að erfast til komandi kynslóða.

Því hafa Norðurlöndin sameinast um að fá norrænar hefðir við smíði súðbyrðins settar á lista hjá UNESCO yfir menningarerfðir mannkyns – listann yfir þýðingarmikla starfhætti sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar – hefðir sem munu hverfa verði þeim ekki viðhaldið.

Hefðir sem mótuðu íslenskt samfélag

Norræni súðbyrðingurinn er ástæðan fyrir landnámi Íslands. Án bátsins er vart hægt að hugsa sér búsetu manna í landinu í þúsund ár. Fiskveiðar með ströndum fram, flutningar milli staða og ferðalög yfir úthafið. Allt þetta byggðist á hinum norræna súðbyrðingi.

Bátasmíðar voru stundaðar allt í kringum landið þrátt fyrir mikinn trjáskort. Knerrir, teinæringar, áttæringar, sexæringar, fjögurramannaför og tveggjamannaför – til hinna fjölbreytilegu nota.

Enn þann dag í dag er súðbyrtum bátum siglt um flóa og firði Íslands og vaxandi viðleitni hefur gætt í seinni tíð að viðhalda fornri þekkingu á smíði og meðferð slíkra báta. Umtalsverður áhugi er meðal fólks á öllum aldri að sækja námskeið í því skyni. Þar hafa einstaklingar, félög og söfn lagt mikið af mörkum með stuðningi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þá er vert að geta þess að súðbyrðingurinn er uppistaðan í bátavarðveislu íslenskra sjóminjasafna.

Með fyrrgreindum hætti varðveitist gömul hefð sem stendur djúpum rótum á Íslandi og einnig meðal annarra norrænna þjóða – sem nú hafa náð samstöðu um að vernda hana og efla.

Öflug samtök eru að baki umsókninni

Um 200 aðilar á Norðurlöndunum, bátasmiðir, söfn og félagagasamtök, standa að baki
umsókninni. Á Íslandi var það Vitafélagið- íslensk strandmenning sem leiddi starfið, en að baki umsókninni standa auk þess bátasmiðir og átta
söfn, þar með talið Síldarminjasafn Íslands og Þjóðminjasafnið. Mennta- og menningarráðuneytið sendi síðan umsóknina inn til UNESCO ásamt menningarráðuneytum annarra norrænna ríkja.

Hefðin lifir góðu lífi

Víða eru sterk félög í kringum strandmenningu og súðbyrta báta á Norðurlöndunum þótt þeir séu ekki lengur nauðsynlegir fyrir afkomu landsmanna. Í þeim fer saman þekking og varðveisla menningararfs, útivist, félagsstarf og vistvænn ferðamáti. Smíði þeirra er kennd í lýðskólum, iðnskólum og saga þeirra og smíði kennd á háskólastigi í Noregi. Því miður er smíði þeirra hvergi kennd á Íslandi. Fjöldi fólks á súðbyrtan bát, einn eða fleiri, og meðan svo er varðveitist þekking á notkun þeirra, viðhaldi og smíði. „Það eru ómetanleg verðmæti fólgin í því að varðveita súðbyrðingshefðina því hún skírskotar beint til nútímafólks“ segir Søren Nielsen frá Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu og heldur áfram: „Súðbyrðingarnir eru mikilvægir því þeir höfða til okkar á alveg sérstakan hátt og uppfylla þarfir sem erfitt er að mæta með öðrum hætti í lífi okkar. Þeir fela í sér tengsl við fortíðina en eru jafnframt ákjósanlegur rammi um umhverfisvæna frístundaiðju og náttúruupplifanir. Súðbyrðingarnir gefa fólki tækifæri til að rækta hefðir og rótgróna menningu í samfélagi við aðra og tryggja framtíð bátanna með því að leiða notkun þeirra inn á nýjar brautir.“

Staðreyndir

Súðbyrðingurinn er sérstök bátagerð og hefur mikinn innbyrðis breytileika sem ræðst af staðháttum og tilgangi, svo sem hvort bátar voru ætlaðir til fiskveiða, vöruflutninga, fólksflutninga – og einnig því efni sem var til ráðstöfunar þegar báturinn var smíðaður.

Skrokkur súðbyrðings einkennist af láréttum timburborðum sem skarast hvert yfir annað – af þessari smíði eru dregin orðin skarsúð og súðbyrðingur.

Enn eru smíðaðir súðbyrðingar á Íslandi –  þó það sé fremur fátítt. Nokkur söfn og einkaaðilar halda handverkinu á lofti með því að smíða súðbyrðinga til einkanota, standa fyrir námskeiðum og miðla þannig þessum dýrmæta menningararfi. Þeir bátasmiðir sem enn smíða súðbyrðinga nota hefðbundin handverkfæri í miklum mæli en vélknúin verkfæri eru einnig notuð. Þá er smíðaviðurinn samur og forðum tíð.

Skráning norrænna súðbyrðingshefða á skrá UNESCO um óefnislegar menningarminjar mun tryggja sýnileika þeirra og árétta mikilvægi varðveislu þeirra. Hún mun jafnframt efla vitundina um hinn óefnislega menningararf og þýðingu hans almennt – auk þess að styrkja varðveislu hinna efnislegu súðbyrðingshefða sérstaklega.

Með þessari norrænu tilnefningu er fylgt eftir samþykkt Sameinuðu þjóðanna um varðveislu óefnislegra menningarminja sem öll norrænu ríkin hafa áður staðfest. Verkefnið hefur notið fjárhagsstuðnings norrænu ráðherranefndarinnar og Norsk kulturråd.