Spegill fortíðar-silfur framtíðar

Spegill fortíðar –silfur framtíðar

Fræðslufundur 7. febrúar 2018 Kl. 20.00

Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur að Grandagarði 18,  2 hæð. ATH. húsið er merkt Hafrannsóknarstofnun

Dagskrá nýs árs verður helguð árinu 1918 í tilefni 100 ára afmælis sjálfsstæðis Íslendinga.

 1918 – 2018

7. febrúar 2018, kl. 20.00

Kristján Sveinsson, sagnfræðingur.  Og allt kom það með skipum. Skip, vitar og hafnir á árinu 1918.

Á þessu ári er því fagnað að Ísland hefur verið sjálfstætt og fullvalda ríki í eina öld. Hugmyndin um fullveldi kom til Íslands með skipi frá útlöndum og það gerði einnig hinn danski hluti samninganefndarinnar sem að lokum komst að niðurstöðu um sambandslagasamninginn sem varð hinn formlegi grunnur fullveldisins fram að lýðveldisstofnun. Fleira barst til Íslands með millilandaskipum en hugmyndir. Verslun efldist á 19. öld og erlendur varningur barst í sífellt meiri mæli til landsins sem greitt var fyrir með útflutningsafurðum sem einkum voru afurðir sjávarútvegs og landbúnaðar. Úthafið er í senn samgönguæð og farartálmi. Öldum saman hafði hlutverk farartálmans verið stærra og meira en um miðja 19. öld varð afdrifarík breyting á þessu með tilkomu gufuskipa og áætlanaferða. Vikið verður að meginþáttunum í þróun kaupsiglinga milli Íslands og nágrannalandanna á síðari hluta 19. aldar og þróuninni fylgt eftir fram á þá 20. þegar landsmenn tengdust umheiminum í ríkari mæli en nokkru sinni áður og innbyrðis samskipti þeirra urðu einnig greiðari með því að reglubundnar strandferðir hófust. Þessari framvindu verður lýst í megindráttum og hugað að þýðingu hennar fyrir þróun íslensks samfélags í spjalli um skip, vita og hafnir.

Kristján Sveinsson er sagnfræðingur í Reykjavík. Starfsmaður Alþingis. Ritaði á fyrri árum bækur um vita og hafnir.

Staður og stund: Grandagarður 18, Reykjavík                                     

Miðvikudagurinn 7. febrúar, 2018

Kl. 20.00.