Febrúar 2017

Brennið þið vitar – lýsið hverjum landa

Fræðslufundur 8. febrúar 2017
Kl. 20.00 í ÆGISGARÐI,
EYJARSLÓÐ 5.

Dagskrá vetrarins er helguð íslenska vitanum sem hefur lýst sjófarendum um hættur strandarinnar og átt þátt í að bjarga óteljandi mannslífum. Þann 8. febrúar heyrum við af mjög árangurríkri notkun vita sem hluta af ferðamennsku á Akranesi.

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi: Vitanir á Breiðinni.
Regína hefur verið bæjarstjóri á Akranesi frá ársbyrjun 2013 og hefur starfað sem stjórnandi í mörg ár, lengst af hjá Reykjavíkurborg. Hún segir: Á Akranesi eru tveir vitar. Sá eldri var byggður árið 1918 og Akranesviti, sá nýrri árin 1943-1944.   Á síðustu árum hafa bæjaryfirvöld á Akranesi lagt fjármuni í að gera upp svæðið í kringum vitana á Breiðinni og þeir eru vinsælir viðkomustaður ferðamanna, ekki síst fyrir tilstuðlan ,,vitavarðarins“ Hilmars Sigvaldassonar. En hvers vegna var ráðist í verkefnið og hvaða þýðingu hafa vitanir fyrir ferðaþjónustu á Akranesi? Regína fer yfir uppbygginguna á Breiðinni og leitar svara við spurningunni um tengsl vitanna og þróun ferðaþjónustunnar í bænum.

Hilmar Sigvaldason, starfsmaður Akraneskaupstaðar. Breytt nýting á Akranesvita.
Hilmar segir frá breyttri nýtingu á Akranesvita og þeim möguleikum sem tengjast auknum fjölda ferðamanna til landsins. Með bjartsýnina að vopni hefur Hilmar glætt svæðið í kringum vitana á Akranesi lífi með því að breyta Akranesvitanum í eins konar menningarvita. Hilmar lumar á ýmsum hugmyndum til að auka á áhuga fólks á vitum landsins.

Staður og stund: Ægisgarður, Eyjarslóð 5, Grandagarði, Reykjavík.
Miðvikudagurinn,  8 febrúar, 2017
Kl. 20.00.  Aðgangur ókeypis

Allar nánari upplýsingar veitir formaður Vitafélagsins, Sigurbjörg Árnadóttir, s. 823-4417.

ATHUGIÐ AÐ FUNDURINN ER Í ÆGISGARÐI, EYJARSLÓÐ 5